Er ég nógu falleg?

 

Rannveig horfði gagnrýnisaugum á sjálfa sig í speglinum. Hún var nakin og vissi sjálf að hún var falleg. Glæsilegur líkami hennar naut sín vel í daufri birtunni frá lampanum á náttborðinu. Langir fótleggirnir og sléttur maginn voru þeir líkamspartar sem hún var ánægðust með.

En var hún nógu falleg til að vinna þessa keppni? Ungfrú Ísland.

--------------

Titillinn var eitthvað sem komst á stefnuskrá Rannveigar snemma í lífinu. Hún tilkynnti foreldrum sínum þá stefnu, aðeins fjögurra ára gömul. Hún horfði þá hugfangin á allt í sjónvarpinu sem hafði með fallegar konur  og erlendar prinsessur að gera og klippti myndir út úr tískublöðunum sem móðir hennar var áskrifandi að.

Híhí skríkti mamma hennar í öllum kerlingaboðum. Verst að það skuli ekki vera hér fegurðarsamkeppnir barna. Hún Rannveig mín er svoooo efnileg skiljiði.

og hún dúllaði og dúttlaði við dóttur sína. Fór sérstaklega í utanlandsferðir til að komast í flottustu og dýrustu barnafataverslanirnar og fyllti fataskápa barnsins af alls kyns fatnaði sem hvorki hæfði aldri né skapgerð barnsins. Sannleikurinn var nefnilega sá að Rannveig hafði löngu fallið frá barnalegum draumum sínum um titla er sneru að fegurð. Hana dreymdi um að verða dýralæknir og æðsti draumurinn var að opna eigin stofu. En hún kom sér ekki að því að segja mömmu sinni frá því. Hreinlega þorði það ekki. Til þess var móðirin alltof áköf í að plana fegurð dótturinnar.

Því var svo komið, eftir áralanga baráttu, er Rannveig var 16 ára, að hún hafði varla sjálfstæðan vilja lengur. Auðveldast var að láta undan kröfum móður sinnar og stöðugum aðfinnslum  til að fá frið. 

Stattu bein. Réttu úr bakinu. Hvað er að sjá á þér hárið krakki? Settu nú á þig aðeins meiri kinnalit. Hefurðu bætt á þig manneskja!

Svo fyllti hún eldhússkápana af alls kyns heilsufæði, lífrænt ræktuðu grænmeti og ávöxtum og sendi Rannveigu í ræktina níu sinnum í viku. ''Það dugar ekki að þú safnir skvapi, stelpa'', sagði hún og gretti sig.

''Mamma, mig langar í hamborgara', sagði Rannveig hljóðlega. ''Og franskar kartöflur'' bætti hún við í huganum.

Móðirin tók andköf af skelfingu. Hún greip í handlegg dóttur sinnar og hristi hana til. ''Ertu brjáluð barn''. Við erum svona langt frá takmarkinu og þú vilt spilla öllu með sveittum hamborgara''. Hún hélt á lofti vísifingri og þumli með tveggja sentimetra millibili til að sýna hversu stutt væri í að allir hennar draumar rættust.

Rannveig fann lausnina. Hún borðaði það sem hún vildi þegar mamma hennar var hvergi nærri og kastaði því svo upp á eftir.

Henni fannst hún hafa himinn höndum tekið. Á þennan hátt gat hún bæði átt kökuna og étið hana. Haldið bæði sér og mömmu ánægðri.

Á sautjánda ára afmælisdag Rannveigar var haft samband við hana og hún beðin um að taka þátt í keppninni um titilinn eftirsótta: Ungfrú Ísland.

Mamma hennar var hálf hysterísk af kæti og bauð henni í utanlandsferð til að halda upp á þetta.

Rannveig hafði lítinn áhuga á að eyða heilli viku með móður sinni og éta kál í erlendri borg. En hvað gat hún gert.

Svo hófst undirbúningur keppninnar og mamma hennar vaktaði hana eins og ugla myndi músarunga. ''Þú verður að losa þig við 5 kíló'', elskan mín sagði hún. ''Slepptu bara prófunum. Þú getur tekið árið upp aftur. Svona tækifæri kemur bara einu sinni á ævinni og þú þarft að eyða öllum þínum tíma í ræktinni. Lærin á þér eru of slöpp''. Hún sló í rassinn á dóttur sinni og skríkti eins og fáviti.

Rannveig var orðin eins og viljalaust verkfæri í höndum móður sinnar. Hún gaf skít í prófin en innra með sér grét hún fögrum tárum. Einu góðu stundirnar sem hún átti var þegar hún faldi sig inn í þvottahúsi með kleinuhringi, kartöfluflögur og heilu lítrana af rjómaís. Svo kastaði hún upp þangað til hún hélt að lifrin og lungun ætluðu upp úr sér.

------------

Hún horfði vandlega á líkama sinn í speglinum kvöldið fyrir fyrstu æfingu á sviðinu. Hún kveinkaði sér við því sem hún sá. Of feit læri. Mjaðmaspik og síður rass. Tárin byrjuðu að renna í stríðum straumum.

''Þú ert aumingi,'' æpti hún á spegilmynd sína. ''Þú getur ekki látið sjá þig innan um allar fallegu stelpurnar. Hvað heldurðu að fólk haldi. Að þú sért geðveik''.

Hún hóf að klípa sjálfa sig um allan líkamann og hendur hennar skildu eftir naglaför og rispur. Hún greip skæri og ætlaði að byrja ráðast á síða hárið sitt þegar hún heyrði andköf fyrir aftan sig.

Rannveig snerist á hæli og mætti augnaráði móður sinnar. 

ÞÉR FINNST ÉG FEIT FEIT FEIT FEIT OG ÓGEÐSLEG ER ÞAÐ EKKI !!! Öskraði hún örvæntingarfull að móðurómynd sinni. Svo seig hún saman og horfði bænaraugum á hana; ''Segðu að þú elskir mig'', bað hún. ''Segðu að þú elskir mig eins og ég er''.

Hún skjögraði í átt að mömmu sinni með útrétta handleggi. Leyfði sér í eitt stutt andartak að láta sig dreyma um hlýjan og huggandi móðurfaðm.

Mamma hennar greip báðum höndum fyrir munninn á sér til að kæfa skelfingarópið. ''Hvernig gastu leynt mig þessu'', hvíslaði hún.

Rannveig grét. Viðþolslaus af harmi. Hún gat ekki afborið hryllinginn sem skein úr svipnum á móður hennar. Hún hóf höndina á loft og rak skærin á kaf í brjóstið á sér.

Ber líkami hennar féll í gólfið. Mamma hennar taldi rifbeinin og horfði með vandlætingu á útstandandi mjaðmabeinin.

''Jahérna stelpa'' sagði hún með þjósti. ''Þú kemst ekki í verðlaunasæti með þennan kropp. Það er nokkuð ljóst''.

 

 


mbl.is Alexandra Helga valin ungfrú Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björgvin Gunnarsson

Vá... frábær smásaga! Svo berðu fallegt nafn í þokkabót :)

Björgvin Gunnarsson, 1.6.2008 kl. 01:53

2 identicon

Dúndur

ha ha (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 10:10

3 Smámynd: Halla Rut

Góð saga og segir svo margt sem við horfum svo oft framhjá.

Takk fyrir bloggvináttu. 

Halla Rut , 1.6.2008 kl. 12:12

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

magnþrungin harmsaga Rannveigar. annars er það víst algngt méð spegla, að þeir eru uppfullir af mjaðmaspiki.

Brjánn Guðjónsson, 1.6.2008 kl. 12:12

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Rosalega saga  og svo sorglegt hvernig hægt er að láta. Útlitsdýrkun er sick.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.6.2008 kl. 13:11

6 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Ég fékk bara gæsahúð við að lesa þetta!!

Konur eru fallegastar eins og þeim líður best, þá skín fegurðin út frá þeim

Róslín A. Valdemarsdóttir, 1.6.2008 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband